Menning

Vilja vekja á­huga ungu kyn­slóðarinnar á töfrum klassískrar tón­listar

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Stelpurnar vinna vel saman og allt gengur hnökralaust fyrir sig á æfingum.
Stelpurnar vinna vel saman og allt gengur hnökralaust fyrir sig á æfingum. Vísir/Ívar

Þrjár táningsstúlkur, sem hófu tónlistarnám á leikskólaaldri, hafa stofnað kammersveit og stefna hátt. Þær vilja höfða til ungu kynslóðarinnar og vekja áhuga hennar á töfrum klassískrar tónlistar.

Þrátt fyrir að vera ungar að árum eru þær Sigrún Marta Arnaldsdóttir, Sól Björnsdóttir og Sveindís Eir Steinunnardóttir hoknar af reynslu og hafa æft á sín hljóðfæri í fleiri fleiri ár.

„Ég var fjögurra ára þegar ég byrjaði,“ sagði Sigrún Marta víóluleikari.

Það mátti ekki seinna vera?

„Nei,“ sagði Sigrún og skellti upp úr og sagðist mæla með tónlistarnámi því það væri bæði gaman að spila á hljóðfæri en svo væri félagsskapurinn góður. Sveindís var fimm ára þegar hún byrjaði að æfa og Sól byrjaði að æfa á píanó fjögurra ára.

Þessar framtakssömu stúlkur hafa nú stofnað kammersveit.

„Þetta byrjaði allt í Brianston þar sem við vorum allar saman á námskeiði og þá fengum við bara þá hugmynd að stofna kammersveit,“ útskýrir Sól.

„Brianston er sumarnámskeið fyrir tónlistarkrakka í Bretlandi og við hugsuðum bara hey! Við erum allar í sama tónlistarskólanum og við getum bara stofnað kammersveit,“ segir Sveindís.

Þetta er mikil vinna en gefandi.

„Það eru náttúrulega algjör forréttindi að geta spilað svona fallega tónlist með öðrum. Við viljum líka þakka kennurunum okkar í Allegro Suzuki tónlistarskólanum.“

Stelpurnar stefna hátt.

„Okkar markmið er að höfða til ungs fólks með því að vekja áhuga á klassískri tónlist og alveg sérstaklega rómantískri tónlist sem við erum mest búnar að vera að spila,“ segir Sól.

Þið viljið auka veg klassískrar tónlistar á Íslandi?

„Já og sýna að það sé mjög gaman að spila saman og spila klassíska tónlist,“ segir Sveindís.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×